Saga Michelsen

Stofnað 1909

Fjórar kynslóðir úrsmiða

Fjölskyldufyrirtæki í yfir 115 ár

Allt frá upphafi hefur aðalsmerki Michelsen verið vönduð vinnubrögð, framsækni og fagmennska en fyrirtækið á rætur sínar að rekja til ársins 1907 Friðrik 8. Danakonungur kom í konunglega heimsókn. Í föruneyti konungs var ungur úrsmiður frá Danmörku, J. Frank Michelsen, sem hafði heyrt af úrsmiðaskorti á Íslandi og var tilbúinn í nýtt ævintýri í nýju landi.

J. Frank Michelsen

Við komuna til Reykjavíkur ferðaðist J. Frank (1882-1954) norður í Skagafjörð þar sem hann endaði í vinnu hjá úrsmið á Sauðárkróki. Þar kynntist hann ungri íslenskri konu, þau felldu hugi saman og settist hann þar að. Þann 1. júlí 1909 stofnaði J. Frank fyrirtækið J. Fr. Michelsen – úr og skartgripir, á Sauðárkróki. Strax frá upphafi var aðalsmerki fyrirtækisins fagmennska og gæði sem hefur varið æ síðan. Frá ca. 1920 til 1939 framleiddi J. Frank og seldi vasaúr undir sínu nafni en vegna haftanna í kjölfar Seinni heimsstyrjaldarinnar var þeirri framleiðslu sjálfkrafa hætt. J. Frank sneri aldrei aftur til Danmerkur og varð einn af máttarstólpum samfélagsins á Sauðárkróki en fyrir utan að starfa sem úrsmiður og gullsmiður og kaupmaður, þá hóf hann svínarækt fyrstur manna á Sauðárkróki, flutti inn og seldi sápu og var slökkviliðsstjóri bæjarins í 25 ár.

Franch Michelsen

Elsti sonur J. Franks, Franch (1913-2009), lærði úrsmíði hjá föður sínum og hélt svo út til Kaupmannahafnar í Danska úrsmíðaskólann þar sem hann útskrifaðist með einkuninna „ultra godt“ eða „einstaklega gott“. Eftir útskrift vann Franch hjá konunglega hirðúrsmiðnum og m.a. við úr sem tilheyrðu Alexandríu drottningu. Franch var hæfileikaríkur úrsmiður frá náttúrunnar hendi og eftir að hafa fengið fjölmörg tilboð frá þekktum úrafyrirtækjum í Sviss og Þýskalandi, hélt Franch heim á leið frá Danmörku árið 1940 þegar stríðið braust út. Hann opnaði aðra Michelsen verslun og vinnustofu í Reykjavík árið 1943, sem varð fljótt ein þekktasta úraverslun og vinnustofa landsins. Samtals tók Franch að sér 12 úrsmíðanema sem er mesti fjöldi sem nokkur úrsmíðameistari á Íslandi hefur gert, enda var Franch þekktur sem einstakur fagmaður í úrsmíði og fyrir leiðtogahæfileika sína sem meistari. Franch var virkur meðlimur í Úrsmíðafélagi Íslands á upphafsárum þess félags og kom m.a. að stofnun Kaupmannasamtaka Íslands ásamt öðrum verslunar-og iðnfélögum sem enn í dag eru starfandi.

Frank Ú. Michelsen

Frank (1956) lærði úrsmíði af föður sínum og í Iðnskólanum í Reykjavík en fór svo fyrstur Íslendinga í hinn virta úrsmíðaskóla WOSTEP í Sviss árið 1978. Þegar Frank var við nám í Sviss, þá komst hann í samband við heimsþekkta úraframleiðandann Rolex sem sýndi áhuga á að koma til Íslands. Árið 1981 hófst samstarf Michelsen og Rolex sem hefur haldist sterkt í 40 ár. Frank naut þess að starfa við hlið föður síns í 30 ár, eða þar til Franch eldri þurfti að draga sig að mestu í hlé árið 1992 eftir alvarleg veikindi. Frank fór reglulega á endurmenntunarnámskeið hjá Rolex til að viðhalda þeim ströngu kröfum sem þeir gera til úrsmiðanna sinna, en axlarmeiðsli komu í veg fyrir að hann gæti unnið lengur við úrsmíðaborðið. Frank var og er enn þekktur fyrir fagmennsku og vingjarnlegt viðmót í garð viðskiptavina sinna. Frank starfaði lengi vel og sinnti mörgum trúnaðarstörfum innan Úrsmíðafélag Íslands og var m.a. formaður félagsins frá 2000 til 2005.

Róbert Michelsen

Með hefðina á bak við sig fetaði Róbert (1984) í fótspor forfeðra sinna. Allt frá unga aldri hafði Róbert fiktað í úrum og sýnt faginu áhuga. Það kom því ekki á óvart þegar hann komst inn í WOSTEP úrsmíðaskólann í Sviss, sem þykir leiðandi á heimsvísu í kennslu úrsmíði, og útskrifaðist með hæstu einkunn árið 2009. Sveinsstykki hans frá WOSTEP var flókin og vönduð smíði sem tók hann marga mánuði að ljúka og vakti töluverða eftirtekt í útskriftarathöfninni.

Ári eftir útskrift flutti Róbert aftur til Sviss þar sem hann fór í framhaldsnám í úrsmíði. Þar lærði hann kennslu og starfaði sem kennari í 3 ár í svissneskum úrsmíðaskóla, samhliða því að taka að sér verkefni frá þekktum svissneskum úraframleiðanda þar sem hann m.a. sá um viðgerðir á antík úrum. Árið 2015 var Róbert ráðinn aðalúrsmiður hins virta úraframleiðanda Urban Jürgensen & Sönner og starfaði sem slíkur allt til árins 2018 þegar hann flutti heim til Íslands til að taka við stjórn verkstæðisins og halda áfram uppbyggingu fjölskyldufyrirtækisins. Með reynslu og þekkingu Róberts, sem á sér enga hliðstæðu á Íslandi, hefur Michelsen fyrirtækið styrkst enn frekar sem leiðandi úraverslun og verkstæði á Íslandi.

Michelsen úrafjölskyldan

Frank Ú. Michelsen, þriðja kynslóð úrsmiða, er eigandi fyrirtækisins. Róbert, fjórða kynslóð úrsmiða, yfirúrsmiður og framkvæmdastjóri en aðrir synir Franks hafa starfað hjá fyrirtækinu í ýmsum hlutverkum frá æsku. Frank M. (1978-2020), sem var viðskiptafræðingur að mennt, starfaði í 8 ár sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins og bar ábyrgð á rekstri þess, tölvuvæðingu fyrirtækisins og að koma því inn í nútímann með breyttum áherslum og tíðafari. Yngsti sonurinn, Magnús (1989), starfar hjá fyrirtækinu við tækni- og sölumál, markaðssetningu og samskipti við ólíka birgja og samstarfsaðila Michelsen innanlands sem utanlands og að leita uppi tækifæri hvar sem þau kunna að leynast.

Michelsen teymið

Fyrirtækið hefur alla tíð verið í eigu sömu fjölskyldu og var stofnað á Sauðárkróki þann 1. júlí árið 1909 af J. Frank Michelsen.

Frank Ú. Michelsen

Úrsmíðameistari

Róbert F. Michelsen

Framkvæmdastjóri & úrsmiður

Magnús D. Michelsen

Sölustjóri