Ókeypis heimsending.

Mín topp 10 úr akkúrat núna

Fyrir gamlan jálk eins og mig sem ólst upp innan um mekaníska tímamæla frá unga aldri uppúr miðri síðustu öld og er bókstaflega mengaður af úrum, er hreint alls ekki auðvelt að velja 10 stök úr í allri þeirri flóru úra sem framleidd eru í heiminum í dag sem uppáhaldsúr. Fjarri lagi. Mjög fjarri lagi.

En, áskorun tekin. Synir mínir skoruðu á mig að finna 10 úr sem ég myndi vilja hafa á hendinni, burtséð frá fjárfestingunni heldur það sem heillar mig persónulega. Ég er mjög hrifinn af GMT úrum sem eru mjög praktísk fyrir þá sem vilja/þurfa að fylgjast með tímanum erlendis svo líklegt er að einhver þeirra verði fyrir valinu. Ég ákvað að halda mig við úr sem ég hef aðgang að, ýmist til á lager Michelsen eða get pantað. Listinn er í engri sérstakri röð, nema númer eitt. Ég mun geyma úr númer eitt sem er mitt uppáhaldsúr þar til síðast, úr sem ég beið í sjö ár eftir að fá á höndina. Og nota bene, ég þekki sko Rolex manninn mjög vel… 😉

Tudor Black Bay Bronze

Eins og þeir sem mig þekkja er ég mikill Tudor aðdáandi, á og nota mikið Tudor Heritage Chronograph og Tudor Heritage Advisor. Ég átti í mikilli baráttu um hvort yrði fyrir valinu Black Bay GMT stál með rauðum/bláum bezel og hvítri skífu eða þetta – sem fyrir valinu varð, Black Bay Bronze úr með svargrárri skífu, 43mm vatnsþétt niður á 200m og leðuról, „In-house“ sjálfvindu úrverk (COSC) með 70 klst hleðsluforða. Þetta er geggjað úr sem fær á sig „Patinu“ þegar það fer í notkun.

Breitling Chronomat B01 42

Breitling er nýtt úramerki hjá Michelsen 1909 og fyrir mig er þar óplægður akur að skoða og velja. Breitling framleiðslulínan er byggð á 140 ára hefð með þrjá grunn flokka: land, sjór og himinn. Chronomat úrin skarast þvert á alla flokkana og er þetta úr (ásamt hinum) frábært dæmi um vel heppnaða hönnun úrs sem fer mjög vel á hendi, stálkassi með platínu bezel og ís-blá skífa, 42mm vatnsþétt niður á 200m og gúmmíól. Í úrinu er „in-house“ sjálfvindu skeiðklukkuúrverk (COSC) með 70 klst hleðsluforða. Þetta er gríðarlega flott úr sem nýtur sín hvort heldur komið á úlnliðinn eða í úrasafni úraáhugamannsins.

Rolex Day-Date 40

Það eru fá úr sem jafnast á við þetta stórkostlega Rolex úr; fordæmalaus hönnun og fyrirmynd sem lagði grunn að því sem kallast „tímalaus klassísk meistarahönnun“, hönnun frá árinu 1956 sem hefur orðið vitni að helstu augnablikum sögunnar á úlnlið hugsjónamanna, listafólks og frumkvöðla. Margir helstu stjórnmálamenn og frömuðir heimsins bera Day-Date og það þekkist strax, sérstaklega á President keðjunni, en nafn hennar ásamt fólkinu sem hefur borið úrið gaf Day-Date viðurnefnið „forsetaúrið“. Platína er í bæði Oyster-úrkassa og keðju, „Ice blue“ skífa, 40mm vatnsþétt á 100m og að sjálfsögðu „in-house“ 3255 sjálfvindu úrverk Superlative Chronometer nákvæmni með 70 klst hleðsluforða.

Áratugirnir líða hjá en Day-Date er ávallt á sama stað – í fremstu röð.

NOMOS Tangente neomatik 39

Þetta úr er fyrir mér NOMOS Glashütte úrið. Tangente er þekktasta lína fyrirtækisins, enda margverðlaunuð og klassísk í hinum sanna „Bauhaus“ anda sem í einfaldleika sínum nýtur sín í frábærri hönnun Nomos. Í öllum Nomos úrum eru „in-house“ úrverk sem er mikið afrek fyrir svo lítinn úraframleiðanda. Nomos koma frá litlum bæ í Þýskalandi, Glashütte þar sem lífið og allt snýst um úr og úraframleiðslu. Eitt af spariúrunum mínum er frá Nomos, þunnt og elegant sem rennur undir ermalíningarnar á skyrtunum. Hér er stál úrkassi, silfurlit skífa, 38.5mm, vatnsvarið á 50m, með leðuról. Úrverkið sjálfvinda, DUW 3001 með 43 klst hleðsluforða.

Seiko Prospex Sumo ‘Silfra’ – Limited Edition

Seiko Prospex er lína sem stendur undir nafni þegar kemur að köfun, hraða og könnun. Prospex eru praktísk og áreiðanleg, hvort sem það er í vatni, lofti eða á landi og henta vel til útivistar á Íslandi. Þetta úr sem ég valdi er „Limited Edition“, aðeins eru framleidd 2.000 úr, einungis fyrir Evrópumarkað þar sem gjáin Silfra á Þingvöllum veitti hönnuðinum innblástur, litbrigði bezelsins tengjast litunum sem kafarar upplifa við köfun í Silfru, einnig er annað ‘Silfra’ módel þar sem umhverfið ofanjarðar ræður litbrigðum á bezel þess úrs. Mjög skemmtileg tenging við fegurð Þingvalla. Úrkassi og keðja er í stáli, blá skífa, 45mm, vatnsþétt niður á 200m. Úrverk sjálfvinda, 6R35 með 70 klst hleðsluforða.

Victorinox I.N.O.X. Carbon – Limited Edition

Victorinox I.N.O.X. Carbon úrið er góður ferðafélagi fyrir þá sem fara á fjöll til veiða (ekki svo að ég sé þar…) eða fyrir stangveiðina, létt og þægilegt til harðneskjulegs brúks þar sem úrkassinn er úr koltrefjum. Það er auðlesanlegt, skýrir tölustafir með lumi næturlýsingu. Svo skemmir ekki fyrir að það er í „Limited edition“, úr nr 511 af 1.500, ekta úr fyrir safnara og úradellukalla, eins og mig. Úrkassinn er úr koltrefjum, skífa í felulitum, 43mm vþ á 200m, ólin Paracord og tvær auka ólar fylgja. Sviss quartz rafhlöðu úrverk.

TAG Heuer Monaco

TAG Heuer býður uppá eitt mesta úrval alvöru sportúra í úraheiminum. Af þeim er Monaco fyrir löngu orðið eitt auðþekkjanlegasta úr heims, sannkallað icon og ómissandi áhugamönnum hvort til notkunar eða í söfn úrasafnara. Ég valdi það þar sem það er ekki aðeins öðruvísi en hin úrin í safninu mínu heldur kitlaði mig sagan á bak við það. TAG Heuer Monaco kom á markaðinn árið 1969 í tengslum við Monaco Grand Prix kappaksturinn og varð frægt þegar það birtist á hendi stórleikarans Steve McQueen árið 1971 kappaksturs kvikmyndinni Le Mans. Þetta úr á heima hjá öllum úraáhugamönnum. Úrkassinn er úr stáli, blá skífa, 39mm, 100m vatnsþétt, leðuról. Úrverkið er sjálfvinda með skeiðklukku, Calibre 11 með 40 klst hleðsluforða.

    Longines Spirit Zulu Time

    Longines er einn elsti úraframleiðandi heims, stofnað árið 1832. Í gegnum tíðina hefur Longines verið förunautur frumkvöðla á landi, sjó og í lofti. Þegar hetjur háloftanna skoruðu þyngdaraflið á hólm í frumbernsku flugsins í öllum veðrum á fyrri hluta 19. aldar treystu helstu frumkvöðlar flugsins á Longines m.a. Charles Lindbergh, Amelia Earhart og Howard Hughes til að nefna nokkra. Í dag hyllir Longines þessar hetjur með úri sem byggir á yfir 100 ára reynslu og þekkingu á tímamælum fyrir mismunandi tímabelti, Longines Spirit Zulu Time. Þetta úr heillar mig sérstaklega, mjög vel heppnuð hönnun á „gamaldags“ klassísku armbandsúri sem getur sýnt þrjá mismunandi tíma í einu ef ég vil. Litasamsetningin er dásamleg. 😊Úrkassinn er stál með keramik bezel, svört skífa, 39mm, 100m vatnsvörn, leðuról. Úrverkið er sjálfvinda, GMT, L844.4 (COSC) með 72 klst hleðsluforða.

    Breitling Superocean Heritage B20 Automatic 42

    Sum úr eru bara falleg. Þetta er eitt þeirra. Ég kalla svona úr gjarnan „Spari Sport“ og þetta úr uppfyllir allar væntingar sem ég geri til slíkra úra, passar með hvort heldur ég sé uppá klæddur í fínustu veislu eða svamlandi í sjónum í sumarfríinu. Form úrsins og samsetning stálsins og gullsins ásamt þessum dásamlega dökkbláa lit gerir þessa hönnun alveg ótrúlega klassíska og fallega. Úrkassinn er stál & 18kt rauðagull og glerhringur úr keramiki. Skífan dökk blá. 42mm, 200m vatnsþétt, gúmmíól. Úrverkið manufacture Breitling B20 (COSC), sjálfvinda með 70 klst hleðsluforða.

    ROLEX GMT-Master II

    Þetta úr er hinn fullkomni tímamælir fyrir mig. GMT-Master II er hannað til að sýna tímann í tveimur tímabeltum samtímis ásamt því að hægt er að sýna tímann í þriðja tímabeltinu ef vill.

    GMT-Master kom fyrst á markað árið 1955 og varð strax úr heimsborgarans, tók þátt í hraðri aukningu á alþjóðlegum ferðalögum heimshornanna milli á seinni hluta 20. aldarinnar. GMT-Master er sannkallað vinnuúr og hefur þróaðist stöðugt til að bjóða upp á bætta tæknilega frammistöðu. Árið 1982 kynnti Rolex nýtt gangverk sem gerði það kleift að stilla klukkustundavísinn óháð hinum vísunum. Til að fagna þessari nýjung var úrið með nýja gangverkinu nefnt GMT-Master II og er í dag auðþekkjanlegt á hönnun Cerachrom bezelsins sem er í mörgum litasamsetningum, neðri helmingurinn táknar dag og efri helmingurinn nótt. Fjórði vísir GMT úrsins nýtir bezelinn til að sýna valinn aukatíma sem hentar öllum þeim sem vilja/þurfa að fylgjast með tíma fjölskyldumeðlims, vinar eða viðskiptafélaga erlendis.

    Nýjasta GMT-Master II úrið og Jubilee keðjan er gert úr hágæða Oyster stáli (904L) með bláum og rauðum Cerachrom bezel, svört skífa, 40mm með 100m vatnsþéttni. Úrverk er með sjálfvindu, cal 3285, hannað og framleitt eingöngu af Rolex, fullkomið tæknilegt afrek og býður upp á framúrskarandi afköst hvað varðar nákvæmni, 70 klst hleðsluforða, þægindi og áreiðanleika.

    Þetta er algjörlega hið fullkomna úr fyrir mig.