Ókeypis heimsending.

Kölski mælir með

Mönnum yfirsést oft eitt þegar þeir dressa sig upp. Þú ferð til Kölska og lætur sérsníða á þig jakkaföt. Þú gerir allt eins og þú vilt hafa það. Allt passar óaðfinnanlega, litasamsetningin geggjuð. Skórnir í stíl við fötin. Þú kíkir á úrið til að sjá hvort þú sért að verða of seinn, en ert í góðum málum.

…eða hvað? Valdir þú úr sem passar jafn vel við fötin og skórnir? Úrið vill gjarnan gleymast þegar verið er að klæða sig fínt upp. Fyrir mér, fæddum og uppöldum í úrum, er fátt stærri glæpur við tísku en að vera í jakkafötum, glansskóm og með svart Casio tölvuúr á úlnliðnum eða 50mm stórt hlaupaúr. Ekki misskilja, ég á sjálfur svona Casio úr og ég elska það, en það er staður og stund fyrir allt. Þú færir varla í stígvél við jakkaföt.

En við þurfum ekki að óttast lengur, því Hjörleifur og Tómas í Kölska eru hér til að hjálpa. Þeir tóku sig til og völdu nokkur úr sem passa vel við jakkaföt, og líka nokkur úr fyrir afslappaðar helgar. Þeir höfðu alveg frjálsar hendur í vali sínu en öll úrin eiga það sameiginlegt að vera það sem við köllum úrvalsúr. Þau eru öll afar vönduð, með svissneskum (eða þýskum) úrverkum og aðeins gerð úr vönduðustu hráefnum, eins og 316L stáli og safírglerjum.

Mig langar að pikka nokkur út til að vekja sérstaka athygli á.

Þetta er eitt af helgarúrunum. Það er með keðju, vatnshelt niður á 300M, með safírgleri og keramik glerhring – sem bæði eru rispufrí. Eins og það sé ekki nógu tilkomumikið, þá skulum við kíkja undir húddið. Úrverkið er nýja Powermatic 80 verkið, það er svissneskt og sjálftrekkt með 80 klukkustunda hleðslu, sem þýðir að það gengur í 80 klst frá því þú leggur það frá þér.

Longines Conquest fetar hinn gullna meðalveg milli þess að vera sportlegt og sparilegt. Fyrir vikið getur þú notað úrið við jakkaföt á virkum dögum, en líka í sundi um helgar. Við mælum reyndar aldrei með því að fara með leðurólar í vatn, en úrið sjálft er vatnshelt niður á 300 metra dýpi. Alvöru fagmenn eiga svo reyndar ólar og keðjur til skiptanna. Eitt úr, mörg útlit.

Elsku Nomos, hvar á að byrja? Ég er ekki hlutlaus aðili, þar sem ég á sjálfur svona úr. Þetta er nánast hið fullkomna spariúr. Stærðin er hógvær í tæpum 39mm, eldblámaðir vísar og gull klukkustundamerki. Það er þunnt, en samt með safírgleri bæði að framan og aftan svo þú getur dáðst að fallegu, sjálftrekktu in-house úrverkinu.

Skildu eftir svar